Kúrbítssúpa á morgnana og kjúklingur á kvöldin

Þegar verið er að grennast er ágætt að temja sér þá reglu að hætta að flokka matvæli eftr því hvenær dagsins viðeigandi er að borða þau.

Hér á Vesturlöndum erum við ofboðslega hrifin af því að raða í okkur kolvetnum, hollum eða óhollum, við byrjun dags. Eftir því hvar á Vesturlöndum við erum stödd er okkur boðið upp á hafragraut, morgunkorn, brauð með sultu eða croissant með morgunkaffinu okkar. Að hafragrautnum mögulega undanskyldum verður að segjast að betra nesti inn í daginn er auðvelt að finna.

Ég eldaði loks kúrbítssúpuna í gær. Uppskriftin er skítauðveld, maður hendir nokkrum niðurskornum kúrbítum í pott ásamt kryddi og hellir svo kjúklingasoði yfir allt saman. Ég hafði ekki tekið eftir því þegar ég keypti í matinn fyrir vikuna að þessi uppskrift þarfnaðist kjúklingasoðs, svo að ég var sérstaklega glöð yfir því að hafa búið slíkt til síðasta laugardag, án þess að hafa á þeirri stundu neina hugmynd um í hvað ég ætti eiginlega að nota það. Það hlakkaði því í mér þegar ég dembdi því öllu yfir kúrbítana mína.

Það var ofboðslega notalegt að geta hitað upp krukku af henni í morgun og sopið í rólegheitum á heitri súpu á leiðinni í vinnuna. Bragðið er milt og mjúkt, og eftirbragðið er himneskt.

Í matinn í gærkvöld var svo kjúklingaréttur sem Melissa Joulwan kallar „Besta kjúkling sem þú hefur nokkru sinni smakkað. Á ævi þinni.“ Án þess að geta tekið alveg svona sterkt til orða (það er annar kjúklingaréttur sem tekur þann stað hands down í mínum huga og það er sítrónukjúklingurinn hans Jamie Olviers) þá var þetta alveg svakalega góður kjúklingur, og fáránlega auðveldur í matreiðslu eins og annað sem kemur frá þessari konu. Smá krydd, inn í ofn, badabúmmstj, á borðið! Meðlætið var svo salat í öllum regnbogans litum sem ég henti saman með því að opna nokkur plastbox úr ísskápnum og hella úr þeim á diskinn. Gæti ekki verið auðveldara, máltíðin komin á borðið eftir um það bil 10 mínútna eldamennsku. Það má þó ekki gleyma því að minnast á marokkósku salatsósuna sem við helltum yfir bæði kjúklinginn og salatið, en svo ég vitni í Melissu, þá segir hún þessa sósu góða á allt kjöt og grænmeti, en að hún hafi virkilega látið kjúklinginn syngja. Og þessum orðum er ég sammála. Bragðgóð sem hún er, ýtti hún einnig undir allt bragð kjúklingsins svo að máltíðin varð algjör bragðsprengja. Ef þið ætlið að prófa uppskriftina, þá vil ég þó minnast á að þetta er sterkur matur, svo ef þið eruð hrifnari af mildu bragði af matnum ykkar, minnkið þá chili magnið.

https://i0.wp.com/www.theclothesmakethegirl.com/wp-content/uploads/2009/06/Moroccan-Dipping-Sauce-thumb.jpg

Leave a comment