Kúrbítssúpa á morgnana og kjúklingur á kvöldin

Þegar verið er að grennast er ágætt að temja sér þá reglu að hætta að flokka matvæli eftr því hvenær dagsins viðeigandi er að borða þau.

Hér á Vesturlöndum erum við ofboðslega hrifin af því að raða í okkur kolvetnum, hollum eða óhollum, við byrjun dags. Eftir því hvar á Vesturlöndum við erum stödd er okkur boðið upp á hafragraut, morgunkorn, brauð með sultu eða croissant með morgunkaffinu okkar. Að hafragrautnum mögulega undanskyldum verður að segjast að betra nesti inn í daginn er auðvelt að finna.

Ég eldaði loks kúrbítssúpuna í gær. Uppskriftin er skítauðveld, maður hendir nokkrum niðurskornum kúrbítum í pott ásamt kryddi og hellir svo kjúklingasoði yfir allt saman. Ég hafði ekki tekið eftir því þegar ég keypti í matinn fyrir vikuna að þessi uppskrift þarfnaðist kjúklingasoðs, svo að ég var sérstaklega glöð yfir því að hafa búið slíkt til síðasta laugardag, án þess að hafa á þeirri stundu neina hugmynd um í hvað ég ætti eiginlega að nota það. Það hlakkaði því í mér þegar ég dembdi því öllu yfir kúrbítana mína.

Það var ofboðslega notalegt að geta hitað upp krukku af henni í morgun og sopið í rólegheitum á heitri súpu á leiðinni í vinnuna. Bragðið er milt og mjúkt, og eftirbragðið er himneskt.

Í matinn í gærkvöld var svo kjúklingaréttur sem Melissa Joulwan kallar „Besta kjúkling sem þú hefur nokkru sinni smakkað. Á ævi þinni.“ Án þess að geta tekið alveg svona sterkt til orða (það er annar kjúklingaréttur sem tekur þann stað hands down í mínum huga og það er sítrónukjúklingurinn hans Jamie Olviers) þá var þetta alveg svakalega góður kjúklingur, og fáránlega auðveldur í matreiðslu eins og annað sem kemur frá þessari konu. Smá krydd, inn í ofn, badabúmmstj, á borðið! Meðlætið var svo salat í öllum regnbogans litum sem ég henti saman með því að opna nokkur plastbox úr ísskápnum og hella úr þeim á diskinn. Gæti ekki verið auðveldara, máltíðin komin á borðið eftir um það bil 10 mínútna eldamennsku. Það má þó ekki gleyma því að minnast á marokkósku salatsósuna sem við helltum yfir bæði kjúklinginn og salatið, en svo ég vitni í Melissu, þá segir hún þessa sósu góða á allt kjöt og grænmeti, en að hún hafi virkilega látið kjúklinginn syngja. Og þessum orðum er ég sammála. Bragðgóð sem hún er, ýtti hún einnig undir allt bragð kjúklingsins svo að máltíðin varð algjör bragðsprengja. Ef þið ætlið að prófa uppskriftina, þá vil ég þó minnast á að þetta er sterkur matur, svo ef þið eruð hrifnari af mildu bragði af matnum ykkar, minnkið þá chili magnið.

https://i0.wp.com/www.theclothesmakethegirl.com/wp-content/uploads/2009/06/Moroccan-Dipping-Sauce-thumb.jpg

Advertisements

Helgi rigningar og eldamennsku

Í dag er mánudagsmorgun. Síðasti mánudagsmorgun í ágúst þar til að ári, og veðrið er ekkert skárra í dag en það hefur verið síðustu vikur. Súldargrámi yfir öllu. Það var freistandi að kúra lengur…. en fram úr þurfti ég að rífa mig til að ná strætó, þar sem ég hafði komið mér haganlega fyrir rétt um rúmlega sjö i morgun. Með Fréttablaðið í hönd undirbjó ég mig fyrir notalega 45 mínútuna leið í vinnuna. Þegar mér bárust allt í einu óhungnanlegir tónar. Getur það verið? – hugsaði ég. Nei… andskotinn hafi það, það getur ENGINN verið svona vangefinn – hugsaði ég. Óguð – hugsaði ég svo, í þann mund sem strætóbílstjórinn krankaði upp í ABBA. Fyrir hálfátta á mánudagsmorgni. Þetta hlýtur að vera ólöglegt.

Til útskýringar, þá fæ ég sterk tilfinningaleg viðbrögð þegar ég heyri í ABBA. Það er eitthvað við þennan skræka óþolandi fokking hressa kvartett með leiðinda tónskiptingum sínum og alltof hraða takti fyrir þessi væmnu ástarlög sem þau eru að syngja, sem gefur mér hroll niður bakið og verk í eyrun þegar ég heyri í þeim. Einhverra undarlegra hluta vegna er þessi hljómsveit ennþá spiluð á öldum ljósvakans. Ég skil ekki af hverju, en það virðist vera fullt af fólki þarna úti sem fílar að hlusta á þetta. Hlýtur að vera sama fólkið og kýs Framsókn.

Nema hvað.

Helgin gekk bara skítsæmilega, svona hvað Mission1 varðar. Á föstudagseftirmiðdeginum var farið í heljarinnar búðarferð þar sem allt til alls var keypt, buttload af grænmeti, prótein og brauð fyrir brauðfíkilinn minn. Á laugardagsmorgninum var ég svo byrjuð að munda hnífinn klukkan hálftíu um morguninn, og stóð svo með litlum hléum við pottana þar til klukkan hálftíu um kvöldið. Ég:

–          Skar niður mörg kíló af alls kyns grænmeti

–          Bútaði niður tvo kjúklinga

–          Afbeinaði svínabóg

–          Gerði tvenns konar soð

–          Skírði smjör

–          Setti kjúklingabringur í saltpækil

–          Eldaði kjúklingalæri og vængi

–          Gerði hnetusósu, og…

–          Marokkóska salatsósu, og…

–          Svínaministeikur, og…

–          Súkkulaði chilipottrétt

Ég náði ekki að gera skosku eggin, marokkósku kjötbollurnar, né zucchinisúpuna sem ég ætlaði að gera, en það verður bara gert í kvöld þá. Súpan, allavega, því hún er hugsuð sem morgunmatur. Ég var í smá vandræðum í morgun, fyrst ég hafði ekki enn haft tíma til að búa hana til, nebbla. Svo hún er definitely á to do listanum.

Já, það var svosem ekki á listanum yfir leyfða hluti, en ég skal samt alveg viðurkenna að það var alveg svolítið næs að hlamma sér í sófann með rauðvínsglas þegar deginum lauk.

Hef ekki enn komið því í verk að gera ummálsmælingar, en það er stefnt að því fyrr en seinna. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég ætti að setja þær hér inn. Ég meina, á einn bóginn gæti það hvatt mig til dáða, á hinn bóginn, þá les enginn þetta blogg (hoho). Hvað segið þið (kæru ímynduðu lesendur) ?

Mission 1 – Vika 1

Jæja þá er komið að því.

Aldrei á ævinni hef ég áður fundið jafn vel fyrir því og nú, hversu feit ég er orðin. Þetta er komið gott.

Undanfarin ár hef ég verið í eða nálægt kjörþyngd, en síðastliðna ár eða svo hef ég slakað hættulega mikið á í mataræði mínu, og reyndar breytt því töluvert frá því sem var eftir að ég kynntist elskulega kærastanum mínum. Í staðinn fyrir að helgar-kósí-morgunmatur væri linsoðið egg og hafragrautur með hunangi og hálfu rauðu greipi með, varð helgar-kósí-morgunmatur að amerískum pönnukökum með hrærðum eggjum og beikoni. Já, ár af slíku og það verður ekki hjá því komist að það breyti ytra byrðinu á manni.

Síðustu mánuðir hafa svo farið í algjör rugl, með sumarfríum og miklum framkvæmdum í húsinu, svo að inn í mataræðið hefur líka bæst kvöldnasl yfir sjónvarpsþáttum eftir erfiðan dag, og brjálæðislega mikill sykur í ýmsu formi.

Þetta er bara orðið gott. Ég er farin að finna fyrir þyngdinni við göngu. Göngulagið sjálft hefur breyst, ég er ekki jafn létt á fæti, og þegar ég sest niður þá er bumban farin að standa út í loftið í stað þess að krumpast niður í fellingar eins og hún áður gerði.

Þetta er orðið gott.

Svo því hef ég blásið til verkefnis. Mission 1, kýs ég að kalla þetta. Ástæðan fyrir nafninu er sú að ég sé það sem tímabundið verkefni að aðlagast nýju mataræði. Því set ég tímamörk. Einn mánuður, eða 30 dagar. Hver vika verður tekin fyrir í einu þó. Þannig að eftir 30 daga er Mission 1 búin og þá get ég snúið mér að næsta verkefni kjósi ég það, sem verður þá Mission 2 og þar fram eftir götunum. Og svo stal ég þessu líka smá frá Melissu Joulwan, sem er með æðislegt matarblogg.

Anyways. Ég tek ekki bara nafnið frá henni heldur er hún líka einn fjögurra höfundur “whole-30” hugmyndafræðinnar, sem ég mun hafa að leiðarljósi þessa 30 daga. Jibbíkóla, þetta verður stuð.

Hér er innkaupalistinn fyrir vikuna. Ég ætla að vona að þetta verði ekki of svínslega dýrt, en á móti kemur að þetta á að duga fyrir tvær manneskjur í heila viku án þess að nokkru eigi að þurfa að bæta við.

Grænmeti Ávextir Prótein Krydd Fita
Brokkolí Sítrónur 2x kjúllar Allrahanda Bragðlítil fita
Grænar baunir Lime Egg Tómatpaste Möndlusmjör
Kál Nautahakk (1 kg?) Nautateningur Kókosmjólk
Rauðkál Svínabógur Steinselja (fersk)
Grænkál Paprika (reykt)
Lambhagasalat Hrísgrjónaedik
Paprika
Spínat
Gulrætur
Gúrka
Vorlaukur
Sykurbaunir
Laukur
Rauðlaukur
Hvítlaukur
Radísur
Avókadó
Tómatar
Sellerí
Zucchini (x2)

Það er allt hvítt…

Ég ákvað það núna fyrir klukkutíma síðan að labba niður í miðbæ. Ég hef aðgang að bíl. Það er ekki málið. En nei… labba skildi það vera, af tillitssemi við móður náttúru, ósonlagið og af hreinum fjandskap við spikið sem leggst á síðurnar á mér nú í svartasta skammdeginu. Og mér finnst gott að labba. Hef reyndar gert minna af því núna undanfarið sökum veðurfars… ég hef ekki mikinn áhuga á því að hálfsbrjóta mig, og eiginlega jafn lítinn áhuga á því heillandi göngulagi sem fylgir hálkunni og verður eiginlega best lýst með orðunum “ferðalag keisaramörgæsanna”. Svo af stað var farið, eftir að hafa dúðað mig sem mest ég mátti, í ullarkápu, leðurstígvél, ullarvettlinga og trefil úr… gerviefni. Verð að verða mér út um eitthvað dýrakyns á hálsinn líka, sé það alveg. Gæti reynt að redda mér svona dauðum refi sem gæti dobblað sem bæði húfa og trefill. Þið vitið, þessir sem húka á enninu á fólki með plast-augasteina og sorgarsvip (enda dauður, hefur ekkert efni á því að vera neitt kátur), og leka svo niður hvirfilinn og hnakkann og enda á því að hringa sig utan um hálsinn á fólkinu… Já. Yrði nokkuð vígaleg þá….

Af stað var farið. Og það var marserað, alveg eins og alvöru keisaramörgæs, þvert yfir Skólavörðuholtið og niður Skólavörðustíg, inn í búð og út úr búð, þangað til ég var kominn þennan litla en krúttlega hring og hafði endað á horni Laugavegs og Barónsstígs. Upp Barónsstíginn var haldið, og þá fór ég virkilega að sjá eftir því að hafa farið labbandi. Það hafði nefnileg byrjað að snjóa (enn einu sinni) á meðan ég rölti mína leið á Laugaveginum, og maður var farinn að þurfa að setja svolítið hausinn undir sig til að fá ekki snjókornin innan undir kragann… en um leið og ég þurfti að fara að klífa Barónsstíginn þá sneri ég þannig að ég fékk rokið beint í fangið, með þessum líka hlussu hundslappadrífum í ofanálag. Það var svo sem ekkert hrikalega mikið rok, þannig að það að fá vindinn í fangið var ekkert svakalegt. En að fá hann beint á ennið, sem var eini líkamsparturinn sem var óvarinn og eini líkamsparturinn sem ég varð að láta skaga eins langt og hann komst út frá líkama mínum og nota sem vindbrjót alla leiðina heim… það var vont. Er að segja ykkur það… refurinn er bara málið. Hann hefði nú ekki kvartað yfir því að halda verndarhendi yfir enninu mínu, með sorgarsvipnum sínum. Þegar heim var komið var ég orðin algjörlega hvít frá hvirfli til ilja (nema auðvitað á gallabuxunum, þær voru bara hundblautar). Ég er ekki frá því að þetta minni mig á barnæskuna, þegar maður lék sér úti hvernig sem viðraði, var bara nógu andskoti vel búinn. Maður gerir þetta ekki nógu oft núorðið. Að finna fyrir verðinu hér á Íslandi. Maður ætti bara að kaupa sér almennileg vetrarföt. Kuldaskó og hlífðarbuxur.

Æji ég er ekki komin á það stig ennþá að láta þægindi hafa forgang fram yfir útlit. Eða það er að segja; ég er ekki komin af því stigi. Ætli maður hafi nefnilega ekki frekar byrjað á því fyrra…