Það er allt hvítt…

Ég ákvað það núna fyrir klukkutíma síðan að labba niður í miðbæ. Ég hef aðgang að bíl. Það er ekki málið. En nei… labba skildi það vera, af tillitssemi við móður náttúru, ósonlagið og af hreinum fjandskap við spikið sem leggst á síðurnar á mér nú í svartasta skammdeginu. Og mér finnst gott að labba. Hef reyndar gert minna af því núna undanfarið sökum veðurfars… ég hef ekki mikinn áhuga á því að hálfsbrjóta mig, og eiginlega jafn lítinn áhuga á því heillandi göngulagi sem fylgir hálkunni og verður eiginlega best lýst með orðunum “ferðalag keisaramörgæsanna”. Svo af stað var farið, eftir að hafa dúðað mig sem mest ég mátti, í ullarkápu, leðurstígvél, ullarvettlinga og trefil úr… gerviefni. Verð að verða mér út um eitthvað dýrakyns á hálsinn líka, sé það alveg. Gæti reynt að redda mér svona dauðum refi sem gæti dobblað sem bæði húfa og trefill. Þið vitið, þessir sem húka á enninu á fólki með plast-augasteina og sorgarsvip (enda dauður, hefur ekkert efni á því að vera neitt kátur), og leka svo niður hvirfilinn og hnakkann og enda á því að hringa sig utan um hálsinn á fólkinu… Já. Yrði nokkuð vígaleg þá….

Af stað var farið. Og það var marserað, alveg eins og alvöru keisaramörgæs, þvert yfir Skólavörðuholtið og niður Skólavörðustíg, inn í búð og út úr búð, þangað til ég var kominn þennan litla en krúttlega hring og hafði endað á horni Laugavegs og Barónsstígs. Upp Barónsstíginn var haldið, og þá fór ég virkilega að sjá eftir því að hafa farið labbandi. Það hafði nefnileg byrjað að snjóa (enn einu sinni) á meðan ég rölti mína leið á Laugaveginum, og maður var farinn að þurfa að setja svolítið hausinn undir sig til að fá ekki snjókornin innan undir kragann… en um leið og ég þurfti að fara að klífa Barónsstíginn þá sneri ég þannig að ég fékk rokið beint í fangið, með þessum líka hlussu hundslappadrífum í ofanálag. Það var svo sem ekkert hrikalega mikið rok, þannig að það að fá vindinn í fangið var ekkert svakalegt. En að fá hann beint á ennið, sem var eini líkamsparturinn sem var óvarinn og eini líkamsparturinn sem ég varð að láta skaga eins langt og hann komst út frá líkama mínum og nota sem vindbrjót alla leiðina heim… það var vont. Er að segja ykkur það… refurinn er bara málið. Hann hefði nú ekki kvartað yfir því að halda verndarhendi yfir enninu mínu, með sorgarsvipnum sínum. Þegar heim var komið var ég orðin algjörlega hvít frá hvirfli til ilja (nema auðvitað á gallabuxunum, þær voru bara hundblautar). Ég er ekki frá því að þetta minni mig á barnæskuna, þegar maður lék sér úti hvernig sem viðraði, var bara nógu andskoti vel búinn. Maður gerir þetta ekki nógu oft núorðið. Að finna fyrir verðinu hér á Íslandi. Maður ætti bara að kaupa sér almennileg vetrarföt. Kuldaskó og hlífðarbuxur.

Æji ég er ekki komin á það stig ennþá að láta þægindi hafa forgang fram yfir útlit. Eða það er að segja; ég er ekki komin af því stigi. Ætli maður hafi nefnilega ekki frekar byrjað á því fyrra…

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s